Efnahagshrunið, óðaverðbólgan, gengisþróunin, atvinnuleysið og markaðs-hrunið er að koma mjög hart niður á þeim sem síst skyldi og minnsta ábyrgð bera, þ.e.a.s. heimilunum í landinu, segir í yfirlýsingu frá stofnfundi Hagsmunasamtaka heimilanna sem haldinn var í síðustu viku.
,,Nú stefnir í það að stór hluti heimilanna í landinu verði gjaldþrota verði ekki gripið strax til raunhæfra aðgerða af hálfu stjórnvalda.
Heimilin og fjölskyldurnar í landinu tóku lán sín til íbúðarkaupa í góðri trú og trausti til fjármálastofnana og stjórnvalda. Margar fjölskyldur eiga nú þess vegna á hættu að verða hlekkjaðar til æviloka við verðlitlar eignir sínar með skuldaklafann á bakinu, eða að verða hraktar af heimilum sínum með opna heimild til endurupptöku krafna til æviloka.
Verði þessi framtíðarsýn að veruleika má gera ráð fyrir verulegum landflótta sem aðeins mun draga afleiðingar kreppunnar á langinn, auka á vandann og ójöfnuðinn. Framtíð íslensks samfélags ræðst af því hvernig stjórnvöld bregðast við núna gagnvart heimilunum og er tíminn til aðgerða mjög naumur."