Helstu neikvæðu áhrifin á hljóðvist

Tenging Grafarvogshverfis og hverfa í Hamrahlíðum og Úlfarsárdal við Vesturlandsveg með mislægum gatnamótum yfir Vesturlandsveg og Úlfarsfellsveg í beinu framhaldi af Hallsvegi, hefði óveruleg neikvæð umhverfisáhrif. Helstu neikvæðu áhrifin verða á hljóðvist við Úlfarsfellsveg. Frummatsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er nú lokið og verður skýrslan kynnt á fimmtudag.

Frummatsskýrslan fjallar um umhverfisáhrif nýs kafla Hallsvegar frá Víkurvegi að Hringvegi með brú yfir Korpu (Úlfarsá), mislægrar gatnamóta yfir Vesturlandsveg og Úlfarsfellsvegar í beinu framhaldi af Hallsvegi.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að tengja Grafarvogshverfi og hverfi í Hamrahlíðum og Úlfarsárdal við Vesturlandsveg og bæta tengingu hverfanna innbyrðis í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur. Mislæg gatnamót eru talin nauðsynleg til að greiða fyrir umferð inn og út úr hverfunum sitt hvoru megin við Vesturlandsveg og bæta flæði umferðar á Vesturlandsvegi. Framkvæmdum er ætlað að auka umferðarrýmd gatnanna, þjónustustig og umferðaröryggi.

Jákvæð áhrif á umferð

Umferð árið 2024 um fyrirhugaðan Hallsveg á milli Víkurvegar og Vesturlandsvegar mun verða rúmir 20 þúsund bílar á dag ef byggð verða Sundagöng. Umferð á Hallsvegi frá Víkurvegi að Strandvegi verður á bilinu 8 til 11 þúsund bílar á dag. Með byggingu hábrúar yfir Kleppsvík gæti þessi umferð aukist um 6 þúsund bíla á dag.

Samkvæmt skipulagsáætlunum verður töluverð uppbygging íbúðabyggðar og verslunar- og þjónustubyggðar fram til ársins 2024 í nágrenni við fyrirhugað framkvæmdasvæði. Sú uppbygging kemur til með að mynda aukna umferð, til og frá þessum svæðum. Þessi umferð mun myndast óháð tilkomu fyrirhugaðra framkvæmda.

Verði ekki byggður nýr leggur Hallsvegar sem tengir Grafarvog við Vesturlandsveg og Blikastaðaland mun umferð um Víkurveg og Korpúlfsstaðaveg aukast um sem nemur þeirri umferð sem ella hefði geta farið um nýjan Hallsveg. Umferð um fyrirhugaðan Úlfarsfellsveg er áætluð um 18 þúsund bílar á dag árið 2024. Sú umferð er fyrst og fremst til og frá fyrirhugaðri íbúðabyggð í Hamrahlíðarlöndum.

Ef Úlfarsfellsvegur verður ekki byggður mun umferð að íbúðabyggð fara um Mímisbrunn og Lambhagaveg. Niðurstaðan er sú að áhrif á umferð eru talsverð jákvæð, þar sem umferð er dreift betur um Grafarvog og Hamrahlíðarlönd og dregur því úr álagi á einstökum vegum.

Hljóðstyrkur eykst
 
Helstu neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar samkvæmt matsvinnunni verða á hljóðvist við Úlfarsfellsveg. Hljóðstyrkur mun aðallega aukast vegna tilkomu framkvæmda þar sem engin samgöngumannvirki eru fyrir í dag. Hljóðstig yrði yfir mörkum fyrir framtíðarbyggð næst Úlfarsfellsvegi án mótvægisaðgerða en með því að byggja 2 metra háa hljóðmön ætti hljóðstig að nást að mestu leyti undir viðmiðunarmörk. Hljóðstig mun verða yfir viðmiðunarmörkum við Borgaveg og Víkurveg óháð framkvæmd.

Tvær fornminjar á framkvæmdasvæðinu

Önnur áhrif, svo sem á vatnafar og vatnalíf, gróðurfar og fuglalíf, eru talin veigaminni vegna eðlis þeirra, umfangs og tímalengdar. Þá eru tvær fornminjar innan framkvæmdasvæðis. Nýja gata við Korpúlfsstaði sem er gömul þjóðleið, lendir í veglínu Hallsvegar og Stóri steinn, gamalt landamerki á milli jarðanna Keldna og Korpúlfsstaða. Framkvæmdin er talin hafa óveruleg neikvæð áhrif á fornminjarnar.

Athugasemdafrestur til 4. mars 2009

Skipulagsstofnun hefur samþykkt að auglýsa frummatsskýrsluna þar sem hún er í samræmi við matsáætlun og lög um mat á umhverfisáhrifum. Kynning á frummatsskýrslu og réttur til að skila inn athugasemdum er frá 20. janúar til 4. mars 2009. Athugasemdir eða ábendingar skal senda skriflega til Skipulagsstofnunar.

Niðurstöður mats á umhverfisáhrifum verða kynntar fimmtudaginn 22. janúar 2009 kl. 20:00 til 21:30, í sal eldri borgara á Korpúlfsstöðum.

Kynningarsíða um Hallsveg

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert