Síðustu vikurnar fyrir fall Kaupþings voru yfir hundrað milljarðar króna millifærðir á reikninga erlendra félaga í eigu viðskiptavina bankans. Um var að ræða lán til þessara félaga gegn veðum í skuldabréfum sem bankinn gaf sjálfur út.
Fyrrverandi stjórnarmenn fullyrða að ekkert óeðlilegt hafi verið við þessa lánafyrirgreiðslu og afgreiðsla lánanna farið fyrir lánanefnd bankans.
Þrátt fyrir að verðmæti skuldabréfanna minnkaði sífellt vegna óvissu á alþjóðamörkuðum var alltaf lánað meira út á bréfin. Var það gert meðal annars til að mæta kröfu Deutsche Bank um viðbótartryggingar. Þýski bankinn hafði líka lánað til skuldabréfakaupanna.
Þessi viðskipti eru sérstaklega tekin fyrir í skýrslu PriceWaterhouseCoopers, sem skilað var til Fjármálaeftirlitsins. Það er í verkahring FME að skoða málið nánar og kanna hvort ekki hafi verið um eðlileg viðskipti að ræða.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.