Ísland fær um þessar mundir jákvæða umfjöllun í erlendum miðlum um ferðamennsku, sem hagkvæmur kostur eftir fall krónunnar.
Leiðarvísirinn Lonely Planet hefur útnefnt Ísland sem einn af sínum „heitustu“ áfangastöðum á árinu 2009, beinlínis vegna gengishrunsins. Tímaritið Budget Travel Magazine mælir einnig með Íslandi af sömu ástæðu. „Við höfum reynt að nýta okkur þessa umfjöllun um Ísland til þess að draga það fram að annars vegar er íslenskt samfélag í fullum gangi og gott að koma hingað og hins vegar að gengisþróunin er mjög hagstæð fyrir ferðamenn,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Á föstudag var líka umfangsmikil umfjöllun um íslenskt verðlag í The Los Angeles Times. Þar segir að íslenskt verðlag sé nú komið aftur niður á jörðina. Nokkrum dögum eftir hrunið hafi ferðaþjónustan hrundið af stað átaki. „Okkar skilaboð voru þessi: Við erum ennþá hérna og vatnið flæðir enn í fossunum,“ er haft eftir Einari Gústavssyni hjá Ferðamálastofu í New York. „Þetta fór strax að hreyfa við fólki. Það kom mjög þægilega á óvart fyrir Ísland, því við þörfnumst erlends gjaldeyris meira en nokkurs annars einmitt nú,“ segir Einar.
„Þó svo Ísland sé kannski ekki einn stór útsölumarkaður er loks vit í að ferðast þangað, fyrir ferðamenn sem hafa heillast af dulmagni þess en verið fældir í burtu af himinháum reikningum,“ skrifar blaðamaður Times. Hann telur upp mörg verðdæmi í dollurum og hnykkir á því að stígvél úr rauðu snákaskinni kosti aðeins 250 dollara á Laugavegi. „Allt þetta þýðir að ferðamenn hafa nú efni á því að heimsækja Ísland, bæði vegna náttúrunnar og gengis krónunnar. Og þeir eru líka að því. Fjöldi bandarískra farþega Icelandair tvöfaldaðist á síðasta ársfjórðungi 2008, miðað við sama tímabil árið þar á undan,“ segir í frásögn blaðsins. Guðjón Arngrímsson segir að bókanir hafi gengið ágætlega fyrir næstu misseri til Bandaríkjanna og frá. Fjöldi væntanlegra farþega sé í ágætishorfi.