Norðurlöndin gætu átt með sér mun öflugra og árangursríkara samstarf innan Evrópusambandsins en utan ef þau kysu svo. Reynslan sýnir að ESB hafi sýnt fullan skilning á nánu samstarfi Norðurlandanna allt síðan Danir gengu inn í sambandið.
Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Alyson Bailes, gestaprófessors við Háskóla Íslands, á fyrsta fundi í fundarröð Samfylkingarinnar um Evrópumálin sem fram fór fyrr í kvöld. Á þessum fyrsta fundi var sjónum beint að friðar- og öryggismálum ESB.
Í máli sínu gerði Bailes hin svonefndu mjúku völd ESB að umtalsefni. Benti hún á að eðli, uppruni og gildi ESB leyfðu ekki að hervaldi væri beitt í árásarskyni. Mjúku völdin fælust hins vegar í efnahagsáhrifum og óáþreifanlegum hlutum eins og góðri ímynd, miklum áhrif og trausti almennings sem ESB nýti í miklu mæli.
Að sögn Bailes eru margir haldnir þeirri ranghugmynd að aðild að ESB þýði sjálfkrafa andstaða gegn NATO og Bandaríkjunum. Minnti hún á að 21 af 27 aðildarríkjum ESB væru líka aðilar að NATO.