Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt þýskan karlmann, Dieter Samson, í fimm ára fangelsi fyrir innflutning fíkniefna. Maðurinn flutti inn til landsins tæp 20 kg af kannabisefnum og 1,7 kg af amfetamíni. Efnin fundust í bifreið mannsins þegar hann kom til landsins með farþegaferjunni Norrænu í september sl.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn fór með Norrænu frá Danmörku. Þegar ferjan kom við í Færeyjum létu tollyfirvöld leita í henni með fíkniefnahundi og veitti hundurinn bíl mannsins sérstaka athygli. Voru tollayfirvöld á Íslandi látin vita. Maðurinn var handtekinn við komuna og ítarlega leitað í bílnum. Efnin voru m.a. falin á bak við klæðningu í farangursrými og í varahjólbarða.
Maðurinn viðurkenndi að hafa flutt inn efnin en tók fram að það hefði ekki verið gert í ágóðaskyni heldur hafi hlutverk hans aðeins verið að aka bílnum. Síðar tók hann fram að hann vissi ekki hvort efnin væru í bílnum eða ekki.
Við aðalmeðferð sagði hann rússneska kunningja sína búsetta í Þýskalandi hafa fengið hann til þess. Bíllinn hafi verið keyptur sérstaklega fyrir ferðina og átti að falla í hans skaut eftir ferðina. Auk þess, sagði hann, greiddu Rússarnir ferðakostnað og átti hann að fá fimm þúsund evrur fyrir ferðina.
Dómurinn sagði framburð ákærða um að hafa ekki vitað um efnin fráleitan. Litið var til þess að maðurinn á að baki gríðarlegan afbrotaferil í Þýskalandi og ekki eru nema tvö ár liðin frá því hann tók út síðustu refsingu sína. Maðurinn er með sakarferil frá árinu 1965, þar á meðal tvo dóma fyrir manndrápstilraun. Samanlögð refsivist, sem maðurinn hefur verið dæmdur til, er rúmlega 45 ár.