Steingrímur J. Sigfússon formaður VG segir að stjórnarsamstarfið sé vitaskuld búið og það sé mikill ábyrgðarhluti af stjórnarflokkunum að halda því lifandi við þessar aðstæður með tilheyrandi ráðleysi og dáðleysi. Það hafi verið ljóst strax í nóvember hvert stefndi. Hann segir að það sé mikill ábyrgðarhluti af stjórnarflokkunum að halda lífi í ríkisstjórninni við þessar aðstæður. Það sé fyrir löngu úti um að þessari ríkisstjórn takist að endurvinna traust kjósenda.
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra er ekki sömu skoðunar og Steingrímur og telur ekki fullreynt enn hvort stjórnin haldi þrátt fyrir að mikið beri á milli í ýmsum málum. Hún segist trúa því að ríkisstjórnin haldi velli þrátt fyrir ókyrrð í Samfylkingarfélagi Reykjavíkur og þrátt fyrir að þinghúsið hafi skolfið undan mótmælum í dag. Að minnsta kosti er hún þeirrar skoðunar í augnablikinu, eins og kemur fram í viðtali við hana eftir ríkisstjórnarfund í morgun.