Rúmlega 500 fá endurkröfubréf frá LÍN

mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Lánasjóður íslenskra námsmanna, LÍN, hefur sent 549 lántakendum endurgreiðslubréf vegna skólaársins 2007-2008.

Í svari LÍN til mbl.is segir að ekki séu neinar sérstakar aðgerðir í gangi. Á hverju ári endurrukki sjóðurinn þá nemendur sem fengið hafa lán sem þeir eiga ekki rétt á samkvæmt úthlutunarreglum.

Helstu ástæður endurkröfu eru að lántakandi hefur fengið fyrirframgreidd skólagjaldalán, en reynist svo með ófullnægjandi námsárangur eða hættir í námi. Hins vegar getur verið um það að ræða að tekjur nemanda samkvæmt endanlegri álagningarskrá RSK eru hærri en áður innsendar tekjuupplýsingar og lækkar það útreiknað lán.

Eins og áður segir hefur LÍN sent út 549 endurgreiðslubréf vegna skólaársins 2007-08. Lántakendur geta samið við LÍN um fyrirkomulag endurgreiðslu. Af þeim 549 endurkröfubréfum sem send hafa verið til lántakenda hefur verið samið um 326 en 223 eru ófrágengin.

Flestar eru endurkröfurnar frá LÍN innan við 300 þúsund krónur en í nokkrum tilfellum á aðra milljón króna, samkvæmt svari sjóðsins til mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka