Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands rýrnaði um 1,1 milljarð frá 30. september til 31. desember. Þetta kemur fram í greinargerð, sem fráfarandi stjórn sjóðsins hefur sent frá sér. Eignir sjóðsins voru rúmir 3,3 milljarðar en voru rúmir 2,2 milljarðar í árslok.
Stjórn Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands er samkvæmt stofnskrá formaður og varaformaður bankaráðs Landsbanka Íslands og bankastjóri sama banka. Sátu þeir Björgólfur Guðmundsson, Kjartan Gunnarsson og Halldór J. Kristjánsson í stjórn sjóðsins en vegna breytinga á eignarhaldi og yfirstjórn bankans í október á síðasta ári hafa þeir nú látið af störfum sem stjórnarmenn í sjóðnum.
Í greinargerð, sem þeir hafa sent frá sér segir, að á starfstíma stjórnarinnar hafi verðmæti eigna sjóðsins vaxið úr um 1,2 milljörðum króna í rúma 2,2 milljarða króna. Á sama tíma hafi sjóðurinn greitt rannsóknarstyrki að fjárhæð 143 milljónir króna og styrkt byggingu Háskólatorgs fyrir að fjárhæð 500 milljónir króna eða samtals um 645 milljónir króna.
Í kjölfar kaupa nýrra kjölfestufjárfesta á ráðandi hlut í Eimskipafélagi Íslands þann 19. september 2003 voru gerðar breytingar á markmiðum, tilgangi og stjórn Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands. Markmið sjóðsins varð að styrkja stúdenta í rannsóknatengdu framhaldsnámi sem stundað er í Háskóla Íslands.
Við breytingarnar voru allar eignir sjóðsins í hlutabréfum Burðaráss hf., samtals 168.401.437 nafnverðseiningar, sem var að markaðsvirði 1.220.910.418 kr miðað við gengið 7,25 þann 19. september 2003. Samningur um eignastýringu var undirritaður við Landsbankann 9. mars 2005 og var markaðsvirði eignarinnar þá 2.382.880.334 kr. miðað við gengi bréfa í Burðarási þann 15. apríl 2005 sem var 14,15 en á þeim degi var eignin móttekin inn í kerfi Landsbankans. Samkvæmt samningnum við Landsbankann var áhættu sjóðsins dreift í samræmi við fjárfestingastefnu hans.
Langtíma fjárfestingarstefna hefur haldist óbreytt frá undirritun samnings, 40% í innlendum skuldabréfum, 30% í innlendum hlutabréfum og 30% í erlendum hlutabréfum auk þess sem fjárfestingarstefnan veitir sjóðsstjórn heimild til að vikja frá stefnunni með fyrirfram ákveðnum frávikum.
Stjórn sjóðsins hefur stefnt að því að árlega sé varið til þessara styrkja eigi minna en 3% af hreinni eign sjóðsins samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi undangengins árs en þó að hámarki meðalraunávöxtun síðustu þriggja ára að frádregnu 1%.
Fyrstu rannsóknarstyrkirnir voru veittir árið 2006 og þá nam heildarfjárhæð styrkjanna 4% af bókfærðri hreinni eign samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2005, sem er 2% umfram áður útgefna stefnuyfirlýsingu stjórnar samanber skýringu 5 í ársreikningi 2007. Árið 2007 nam heildarfjárhæð styrkjanna 2,5% af hreinni eign og árið 2008 2,6% af hreinni eign sjóðsins samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi undangengins árs.
Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands lagði auk þess til byggingar Háskólatorgs Háskóla Íslands 500 milljónir króna sem greiddar voru út í tvennu lagi. Fyrri greiðslan var 270 milljónir króna á árinu 2006 og sú síðari árið 2007 upp á 230 milljónir króna. Alls hafa verið greiddar út rúmar 645 milljónir krónur.