Íbúar í Sandgerði fengu nokkrir upphringingu í gærkvöldi frá manni sem sagðist vera dæmdur barnaníðingur. Maðurinn sagði að honum bæri skylda að láta vita af sér þar sem hann væri að flytja í hverfi þeirra. Maðurinn hringdi úr leyninúmeri og vildi ekki gefa upplýsingar um það nákvæmlega hvar hann myndi setjast. Líklegt er talið að um hrekk sé að ræða.
Á vefsvæðinu 245.is, sem er frétta- og upplýsingavefur í Sandgerði, er sagt að íbúum hafi brugðið mikið og sumir sagst ætla að flytja úr bænum ef satt reynist. Tveir íbúar höfðu samband við lögreglu og tilkynntu um símtölin.
Fréttavefurinn hefur eftir Gyðu Hjartardóttur, félagsmálastjóra Sandgerðis, að ekkert sé í lögum sem segi að menn þurfi að tilkynna búsetu sína til nágranna, þó þeir séu kynferðisafbrotamenn.