„Það er verið að sýna samstöðu hér. Við hér fyrir norðan getum ekki farið niður á Austurvöll eða Alþingi, þannig að við ákváðum að fara niður á okkar Ráðhústorg og sýna samstöðu með þeim sem eru að berjast fyrir sunnan,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, einn mótmælenda í samtali við mbl.is í kvöld.
Um það bil 50 manns hafa safnast saman á torginu. Þar hefur verið kveikt í litlum bálkesti auk þess sem mótmælendurnir nota ýmsa hluti til að framkalla hávaða. Kveikt var í Kaupþingsfána og myndum af ráðherrum ríkisstjórnarinnar.
Valgerður segir að ákvörðun hafi verið tekin um klukkan 20 í kvöld að sýna mótmælunum í Reykjavík samstöðu. „Það er hugur í fólki, en engin læti,“ segir hún. „Það streymir alltaf fleira og fleira fólk að. Þetta á eftir að verða eitthvað meira þegar líður á kvöldið.“
Sumir mótmælendur sögðust ætla að vera þarna í alla nótt til að sýna samstöðu.
Lögreglan fylgist með en ekki hefur komið til neinna átaka.