Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði nú undir kvöld, að það væri ábyrgðarleysi að leysa upp ríkisstjórnina í ljósi þeirra aðstæðna, sem eru í efnahagslífi landsins. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar sagði eftir þingflokksfund að flokkurinn væri í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og á meðan yrði ekki rætt við aðra flokka.
Geir var spurður um yfirlýsingu þingflokks Framsóknarflokksins frá í dag um að flokkurinn sé tilbúinn að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og VG falli kjósi Samfylkingin að slíta samstarfinu við Sjálfstæðisflokk. Sagði Geir, að það væri eðlilegt að nýr formaður Framsóknarflokksins vildi „stimpla sig inn" með þessum hætti en stjórnarsamstarfið væri hins vegar ekki í hættu.
Geir sagði, að ef stjórnarasamstarfinu yrði slitið og boðað til kosninga yrði vinna við efnahagsráðstafanir sett í uppnám, m.a. mörg verkefni sem ætlað er að draga úr áhrifum efnahagshrunsins á almenning.
Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði eftir þingflokksfund flokksins, að á meðan Samfylkingin væri í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn ræddi hún ekki við aðra flokka.
Lúðvík sagði, að yfirlýsing Framsóknarflokksins hefði borist inn á fundinn og verið lítillega rædd. Lúðvík tók fram, að mikill einhugur væri í þingflokknum og þingmenn væru mjög meðvitaðir um það sem væri að gerast í samfélaginu.