Aðkoma ríkisins vart marktæk

Framkvæmdastjóri SGS efast um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sé …
Framkvæmdastjóri SGS efast um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sé traustur samningsaðili. mbl.is/Brynjar Gauti

„Er ríkisstjórnin traustur samningsaðili?,“ spyr Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. Skúli segir viðræður um endurnýjun kjarasamninga hafnar en vandséð sé hvernig ríkisstjórnin, sem rúin sé trausti almennings, geti komið að kjaraviðræðum, svo mark sé á takandi.

Í pistli á heimasíðu Starfsgreinasambands Íslands, SGS, segir Skúli Thoroddsen að reiði almennings gagnvart stefnulausri ríkisstjórn stigmagnist dag frá degi. Stöðugt bætist nýjar upplýsingar í sarpinn um að stjórnvöld vissu eða hafi mátt vita hvert stefndi með ofvöxnu blöðrubankana, en þau hafi ekkert aðhafst, heldur látið reka á reiðanum.

„Enginn axlar ábyrgð. Forkólfar bankanna og aðaleigendur léku sér að sparifé almennings og lífeyrissjóða, innanlands og utan, með blekkingum og ábyrgðarlausum pappírsviðskiptum innherja til að slá ryki í augu fólks, svíkja og pretta. Efnahagslífið keyrði í þrot, eða svo notuð séu orð Willem H. Buiter, engin virk löggjöf hafi verið til staðar til að hefta vöxt bankanna,“ segir framkvæmdastjóri SGS.

Hann segir atvinnulífið lamað með tilheyrandi atvinnu- og vonleysi fólks. Þeirri öfugþróun verði að snúa við. Skúli segir ríkisvaldið verða að koma að þeim viðræðum sem hafnar eru um endurnýjun kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins.

„Það er hins vegar vandséð hvernig ríkisstjórn sem rúin er trausti almennings geti komið að kjaraviðræðum, svo mark sé á takandi. Engu að síður er aldrei mikilvægara en nú að traust ríkisstjórn með skýra framtíðarsýn um það hvernig við eigum að vinna okkur úr vandanum komi að því borði. Er ríkisstjórnin traustur samningsaðili?,“ segir framkvæmdastjóri SGS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka