Ákvörðun sýslumannsins á Selfossi um að gefa út handtökuskipun á hendur 370 einstaklingum, sem ekki hafa skilað sér í fjárnám hjá embætti hans, vakti hörð viðbrögð meðal almennings. Svo hörð viðbrögð að dómsmálaráðherra sá ekki annað í stöðunni en að beina þeim tilmælum til hans að draga úr hörkunni. Sýslumaðurinn sagðist í kjölfarið ætla að endurskoða vinnubrögð sín.
Varla er hægt að setja út á það að sýslumaður reyni að innheimta þau gjöld sem honum ber samkvæmt lögum. Yfirlýsing Ólafs Helga Kjartanssonar um að hann ætli að hundelta skuldara var hins vegar óviðeigandi og illa tímasett í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Það viðurkenndi hann sjálfur og það er haft eftir honum í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.
Yfirlýsingin var fyrst og fremst hvatning til skuldara að ganga frá sínum málum og hefur þessi leið verið farin áður. Dómsmálaráðherra hugnast ekki þessi aðferð og í tilkynningu sinni segist hann telja það óskynsamlegt af sýslumanni að kynna ákvörðun sína með slíkum hætti.
Það þýðir þó ekki að skuldarar á Suðurlandi séu lausir allra mála. Þeir fá einfaldlega ekki lengur tilkynningu í blöðunum.
Fjörutíu „handteknir“ á mánuði
Það er ekki óvanalegt að lögregla „handtaki“ þá sem ekki svara ítrekuðum kvaðningum sýslumanna. Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur raunar mánaðarlegan kvóta hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Þangað má hann senda fjörutíu mál á mánuði. Kvótinn er nær undantekningarlaust fullnýttur. Það þýðir að 480 einstaklingar eru færðir til sýslumannsins árlega af lögreglu.
Ríkisstjórnin hefur gefið út tilmæli um að skuldurum verði veitt meira svigrúm en verið hefur. Þau tilmæli eiga hins vegar ekki við um sýslumenn heldur kröfuhafana. Þeir hafa öll ráð á hendi, s.s. að semja við skuldarann, seinka innheimtunni eða fresta. „Það væri sérkennilegt ef við færum að seinka málum hjá okkur. Við höfum þá lagaskyldu að afgreiða þær beiðnir sem okkur berast og við verðum að gera það fljótt og vel, líkt og lögin segja okkur,“ segir Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík.
Stærsti einstaki kröfuhafinn hjá sýslumanninum í Reykjavík er tollstjórinn í Reykjavík. Snorri Olsen, tollstjóri, segir að þau skilaboð hafi verið send út til allra innheimtumanna, að sýna meiri sveigjanleika. Og hann segist geta fullyrt að farið hafi verið eftir því.
Þrátt fyrir það eru fulltrúar frá tollstjóranum hjá sýslumanni á hverjum degi að taka á móti fólki, semja um greiðslur eða gera fjárnám. Fjárnámið er lokapunktur á innheimtuferlinu.
Óttast að fjárnámum fjölgi
Á síðasta ári var skráð 18.541 fjárnámsbeiðni hjá sýslumanninum í Reykjavík. Það var nokkru færra en árið 2007, en þá voru 19.758 beiðnir skráðar. Það tekur ætíð einhverja mánuði fyrir einstaklinga að komast í þá stöðu að gert sé fjárnám hjá þeim. Rúnar segist renna blint í sjóinn á nýju ári en óttast að fjárnámum muni fjölga.
Því til stuðnings segir Snorri að hjá tollstjóranum gangi verr að innheimta staðgreiðslu á virðisaukaskatti en á sama tíma fyrir ári.
Árétting
Taka ber fram að sýslumenn á landsbyggðinni hafa heimild til að sýna meiri sveigjanleika í innheimtu opinberra gjalda, þar sem þeir eru sjálfir innheimtumenn ríkissjóðs. Þegar um almenna kröfuhafa er að ræða, s.s. banka og fyrirtæki, gildir er það ekki þeirra að veita skuldurum frest. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru langflest mál þeirra 370 einstaklinga á Suðurlandi sem fjallað er um, til komin vegna almennra krafna.
Spurt & Svarað
Hvað er fjárnám? Aðför til fullnustu kröfu um greiðslu peninga.
Hver krefst fjárnáms? Kröfuhafi getur krafist fjárnáms hjá skuldara ef krafa er í því formi að hún teljist aðfararheimild. Aðfararheimildir eru m.a. dómar og úrskurðir dómstóla, skuldabréf með beinni aðfararheimild, víxlar, skattakröfur, dómsáttir og úrskurðir yfirvalda.
Hvernig fer fjárnám fram? Skuldaranum er kynnt fjárnámsbeiðnin og meðfylgjandi gögn. Hafi hann ekkert við kröfuna að athuga er skorað á hann að greiða hana. Verði hann ekki við því er skorað á hann að benda á eignir sínar sem nægja til að tryggja kröfuna. Eigi hann engar eignir eða ekki nægilegar eignir til að tryggja kröfuna lýkur fyrirtökunni með árangurslausu fjárnámi.
Og hvað gerist þá? Kröfuhafi fær heimild til að óska eftir gjaldþrotaskiptum hjá skuldaranum. Heimildin gildir í þrjár mánuði. Nafn skuldara fer einnig á vanskilaskrá.
Heimild: syslumenn.is