Endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins, sem kynnt var í Þjóðmenningarhúsinu í gærmorgun, gerir ráð fyrir því að djúp efnahagslægð sé framundan á næstu tveimur árum. Búist er við því að landsframleiðsla dragist saman um 9,6 prósent á þessu ári og kaupmáttur launa almennings muni minnka um rúmlega 13 prósent árinu.
Forsendur spárinnar eru þó háðar mikilli óvissu, að sögn Þorsteins Þorgeirssonar, yfirmanns efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Stærsti einstaki óvissuþátturinn liggur í því að mikillar óvissu gætir um hvaða áhrif erfiðleikar í efnahagsmálum um heim allan munu hafa á íslenskan efnahag. Vandamál á alþjóðamörkuðum hafa aukist mikið undanfarnar vikur og mánuði og gætir mikillar óvissu um hversu djúp lægðin verður og einnig hvenær hagkerfi víðs vegar í heiminum fari að rétta úr kútnum. Í þjóðhagsspánni er gert ráð fyrir því að „efnahagslíf heimsins nái hægum bata árið 2010 og þá hægi verulega á samdrætti í íslensku efnahagslífi og innlend eftirspurn taki jafnvel að aukast hægum skrefum á síðari hluta ársins“, eins og orðrétt segir í spánni. Þetta er meðal þeirra forsendna sem spá um þróun mála hér á landi byggist á.
Gert er ráð fyrir því að mikill viðsnúningur verði á vöruskiptum eftir mikinn halla á þeim undanfarin ár. Sex prósenta afgangur verður af þeim á þessu ári samkvæmt spánni sem gerir ráð fyrir um 23 prósenta samdrætti í innflutningi á vörum og þjónustu. Verðmæti útflutnings verði því umtalsvert meira en verðmæti innflutnings.
Því er spáð að afkoma ríkissjóðs verði neikvæð á þessu ári um 12,3 prósent af landsframleiðslu, eða sem nemur um 187 milljörðum króna, og á næsta ári verði afkoman neikvæð um 10,1 prósent. Það nemur um 155 milljörðum. Samkvæmt því munu útgjöld ríkissjóðs dragast saman um 26 milljarða við fjárlagagerð næsta árs. Til samanburðar var skorið niður um 45 milljarða á þessu ári. Niðurskurðurinn fyrir þetta ár var að mestu bundinn við að slá af ný verkefni, auk hagræðingaraðgerða við yfirstjórn stofnana. Á næsta ári mun niðurskurðurinn því verða sársaukafyllri en nú, þar sem hann mun beinast í meira mæli að verkefnum og störfum sem hafa verið lengi á fjárlögum.
Ítarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.