Lífsnauðsyn að auka fjárveitingar til lögreglu

mbl.is/Júlíus

„Það er að okkar mati lífsnauðsyn að auka fjárveitingar til lögreglunnar,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, LL. Snorri fundaði í morgun ásamt hluta framkvæmdastjórnar LL með Geir H. Haarde forsætisráðherra um stöðu lögreglunnar. Snorri ritaði forsætisráðherra opið bréf í Morgunblaðinu á dögunum þar sem hann fór yfir stöðu löggæslumála, mannfæð, tækjaskort og ekki síst það ofbeldi sem lögreglumenn mega þola í starfi.

„Um áraraðir hefur krafan um aðhald í ríkisrekstri þrengt svo að rekstri lögreglu í landinu að nú er svo komið, að mati Landssambands lögreglumanna, að ekki verði lengur við unað enda almenn hagræðingarkrafa ríkissjóðs á lögreglu farin að hafa slík í þyngjandi áhrif á rekstur lögreglu að öryggi lögreglumanna og lífi þeirra er ógnað,“ segir Snorri í bréfinu.

Forsætisráðherra kallaði Snorra í framhaldinu til fundar og hittu hann og hluti framkvæmdastjórnar LL forsætisráðherra í morgun.

„Þetta var góður fundur og málefnalegur. Við ræddum innihald bréfsins og þá staðreynd að sárlega vantar meiri fjármuni til lögreglunnar, meiri tækjabúnað, varnarbúnað og annað þvíumlíkt. Á þetta höfum við bent allt síðasta ár. Við fengum ekki skýrari svör hjá forsætisráðherra en við höfum hingað til fengið, enda áttum við ekki von á því. Við gerum okkur grein fyrir því að í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu er ekki hægt að gefa skýr svör, það er að segja svör sem við viljum og sættum okkur við. Það er hins vegar að okkar mati lífsnauðsyn að auka fjárveitingar til lögreglunnar,“ segir Snorri.

Í byrjun desember auglýsti lögreglan eftir 22 lögreglumönnum til starfa í samræmi við þáverandi rekstraráætlun en óvíst er um nýráðningar vegna niðurskurðar. Snorri segist ekki hafa tölur um hve marga lögreglumenn vanti til starfa en þeir skipti einhverjum tugum.

„Við getum tekið sem dæmi að í desember voru útskrifaðir rúmlega 30 lögreglumenn úr Lögregluskólanum. Sá fjöldi var samkvæmt mati embættis ríkislögreglustjóra, dómsmálaráðuneytisins og væntanlega ríkisstjórnarinnar um þörf á lögreglumönnum en að meginstofni til ganga þessir lögreglumenn atvinnulausir í dag. Þetta er staðan sem við blasir.“

Snorri segir að á fundinum með forsætisráðherra hafi líka verið rætt um atburði gærdagsins og engum sé rótt vegna ástandsins.

„Þetta er tvímælalaust með því verra sem sést hefur hér á landi í seinni tíð og ég held að við þurfum að fara allt aftur til ársins 1949 til að finna hliðstæðu. Þetta er afar sjaldgæft sem betur fer,“ segir Snorri um atburði gærdagsins og næturinnar á Austurvelli.

Lögregla og mótmælendur tókust á nokkrum sinnum og máttu lögreglumenn þola að matvælum væri kastað í þá og jafnvel grjóti en lögreglumenn beittu ítrekað piparúða gegn mótmælendum.

„Það hefur orðið gríðarleg endurnýjun í lögregluliðinu á síðustu árum. Það er komið inn yngra fólk og það er ekkert frábrugðið því fólki sem mótmælir núna, er með sín íbúðalán og bílalán og annað, rétt eins og mótmælendur. En í ofanálag þurfum við að taka við svívirðingunum, grjótinu og eggjunum og virka sem stuðpúðar milli mótmælenda og stjórnvalda.“

Snorri segir ljóst að haldið verði áfram að þrýsta á um eflingu lögreglunnar.

„Leiðir okkar lögreglumanna og dómsmálaráðuneytisins með Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra í forsvari þar, liggja alveg saman. Við tölum sama tungumál í þessum efnum. Það þarf að auka fjárveitingar til lögreglunnar og efla hana en það er litla peninga að fá í augnablikinu.“

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert