Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir að óhjákvæmilegt sé að boða til alþingiskosninga í vor og allir stjórnmálaflokkar verði að huga að því.
„Staðan er grafalvarleg og reiðin er að aukast, öldurnar mun því ekki lægja nema boðað verði til kosninga. Það er það skynsamlega í stöðunni,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is. Alþingi kalli eftir vinnufriði en af því verði líklega ekki nema að ákvörðun verði tekin um kosningar. „Við þurfum því að ná þverpólitískri samstöðu um að kosið verði í vor,“ segir Ágúst.
Hann telur þetta ríkjandi skoðun innan Samfylkingarinnar, flokkurinn hafi alltaf boðað breytingar og nýja hugsun, kosningar séu því eðlilegur hluti af nálgun flokksins. Það sé einnig nauðsynlegur hluti í uppgjörinu sem fara verður fram í ljósi aðstæðna.