Þingfundur fellur niður

Starfsmenn Reykjavíkur hafa í dag safnað saman bekkjum í miðborginni …
Starfsmenn Reykjavíkur hafa í dag safnað saman bekkjum í miðborginni en nokkrir þeirra voru dregnir á bál og brenndir í mótmælum í gærkvöldi. mbl.is/Júlíus

Fundur, sem átti að halda á Alþingi í dag, fellur niður. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, segir ákvörðunina ekki standa í sambandi við boðuð mótmæli við Alþingishúsið í dag. Í samtali við mbl.is sagði Sturla að verið væri að þrífa Alþingishúsið og skipta um rúður auk þess sem gefa þyrfti þingmönnum svigrúm til að undirbúa sig fyrir umræður sem fram fara á morgun, lítið tóm hafi gefist til þess í gær. 

Auk hefðbundinnar dagskrá á Alþingi í dag stóð til að taka tvö mál til umræðu utan dagskrár.

Um tuttugu manns voru færðir á lögreglustöð til skýrslutöku í tengslum við mótmælin við Alþingishúsið í gær. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir, að rúður hafi verið brotnar og eldur kveiktur á minnst tveimur stöðum í miðborginni en beita hafi þurft bæði varnarúða og kylfum. Lögreglumenn voru grýttir með grjóti, glerflöskum, matvælum, mold og drullu.

Lögreglan segir, að kyrrð hafi að mestu komin á í miðborginni um klukkan 3 í nótt. Um fimmleytið hafi síðasti mótmælandinn verið keyrður til síns heima en um hafi verið að ræða konu á miðjum aldri. Hún hefði staðið lengi við Alþingishúsið og orðin skjálfandi af kulda. Ekki sé vitað til þess að neinn hafi slasast alvarlega  í gær og nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka