Stjórn starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar hefur sent frá sér ályktun þar sem fram kemur að stjórnin harmi það að svo sé komið að skera þurfi niður starfsemi Landhelgisgæslunnar. Þá segir að með slíkum uppsögnum, sé verið að kasta á glæ gríðarlegum verðmætum í mannauði.
Yfirlýsing stjórnarinnar fylgir í heild sinni hér á eftir:
„Í ljósi þeirra upplýsinga að til standi að segja upp 20-30 starfsmönnum Landhelgisgæslunnar í því kreppuástandi sem skekur íslenskt þjóðfélag, vill stjórn starfsmannafélagsins koma eftirfarandi ályktun á framfæri.Stjórn starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar harmar það að svo sé komið að skera þurfi niður starfsemi Landhelgisgæslunnar, eins og tilkynnt hefur verið.
Dýrmætustu fjárfestingar Landhelgisgæslunnar eru fólgnar í þekkingu og þjálfun starfsfólks. Einu gildir hvort um er að ræða fólk sem starfar á landi, lofti eða legi. Vill stjórn starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar benda á það , að með slíkum uppsögnum, eins og kynntar hafa verið, er verið að kasta á glæ gríðarlegum verðmætum í mannauði.
Tól og tæki Landhelgisgæslunnar gera ekkert ein og sér. Þegar mest á reynir á erfiðum slóðum þá er það starfsfólk Landhelgisgæslunnar sem er til taks, búið þeim sömu tækjum og tólum sem fyrr getur.
Viljum við vara við því að farið verði of geyst í slíkar uppsagnir á einni af undirstöðum öryggis hér á landi.
Stjórn STAFL"