Hópurinn sem stendur að rettlaeti.is, eigendur í peningamarkaðssjóðum Landsbankans, er vongóður um að fá tap sitt á sjóðunum bætt. Eigendurnir töpuðu þriðjungi sparnaðar síns. Ómar Sigurðsson, sem tapaði 20 milljónum af áratuga sparnaði sínum, segir að sjá megi í þeim upplýsingum sem hópurinn hefur safnað að ekki var allt með felldu við þær aðferðir sem bankinn beitti við að fá fólk til að leggja sparnað sinn í peningamarkaðssjóði dótturfélagsins.
Fjármálaeftirlitið skoðar nú sjóðina og segir Ómar að hann geti ekki ímyndað sér annað en málið endi á borði ríkissaksóknara. „Hafi bankinn gerst brotlegur við lög er hann bótaskyldur gagnvart okkur.“ Þá sé spurt hver eigi að bæta tjónið.
„Við lítum svo á að eftirlitsskylda ríkisins hafi brugðist í þessu máli. Það ber því ábyrgð.“ Þá bendir Ómar á að á fundi hópsins með bankastjórn Landsbankans hafi komið fram að bankinn hygðist skoða mál hvers viðskiptavinar sem telji að hann hafi verið ginntur til viðskiptanna. Hann hvetur því þá sem vilja bætur að mæta á fund sem hópurinn stendur fyrir í sal 1 í Laugardalshöllinni fimmtudaginn 22. janúar klukkan 20. Hópurinn hafi ráðið lögmanninn Hilmar Gunnlaugsson. Hann fari yfir mál hvers og eins og herji svo á bankann.