Forysta Alþýðusambands Íslands vill fresta viðræðum um endurskoðun kjarasamninga á vinnumarkaðinum fram í júní. Í millitíðinni verði boðað til þingkosninga og ný ríkisstjórn taki við, sem hafi nægilegan styrk og óskorað umboð til að koma að þríhliða viðræðum með samtökum vinnumarkaðarins um uppbyggingu til framtíðar. Miðstjórn ASÍ komst að þessari niðurstöð í gær og mun leggja hana fyrir formannafund allra aðildarfélaga ASÍ sem boðaður hefur verið á morgun.
Fallist formennirnir á þetta verður þess óskað við Samtök atvinnulífsins að frekari viðræðum um framlengingu kjarasamninga verði frestað fram í júní. Skv. heimildum er ástæðan ekki ágreiningur við atvinnurekendur heldur er langlundargeð ASÍ gagnvart stjórnvöldum brostið. Ekkert hafi gengið að fá þau að viðræðunum eins og nauðsynlegt sé til að koma á samstilltum aðgerðum.