Bakarar nota íslenskt bygg

Bygg er ræktað um allt land.
Bygg er ræktað um allt land. Kristinn Ingvarsson

Félagsmenn í Landssambandi bakarameistara hafa bundist samtökum um að hefja markvissa notkun á íslensku byggi í brauðgerð og bakstur. Reiknað er með að í upphafi verði byggið notað með hveiti til brauðgerðar og á boðstólum verði byggbrauð í flestum bakaríum.

Samtök iðnaðarins vekja athygli á því að fyrir stuttu gerði Kornax samkomulag við Eyrarbúið ehf. á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum um að dreifa möluðu byggi á almennan markað.  Íslenskt bankabygg, heil byggkorn, hafa hins vegar verið fáanleg í nokkur ár. Þá hefur bjór, bruggaður úr íslensku byggi, að sama skapi verið fáanlegur um nokkurt skeið.

Ragnheiður Héðinsdóttir, forstöðumaður matvælasviðs Samtaka iðnaðarins, segir að byggmjöl henti vel til brauðgerðar ef það er notað með hveiti. Einnig sé hægt að nota það með lyftidufti í kökur og það sé hægt að nota í kex og flatkökur. Hún segir að byggið sé afar bragðgott og heil byggkorn henti vel í grauta, salöt og súpur.

„Þetta eru tímamót í almennri nýtingu íslensks korns til matvælaframleiðslu,“ er haft eftir Ragnheiði í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins. „Bakarar hafa mikinn áhuga á að vinna með bændum. Þetta er mikilvægt skref, ekki síst vegna þess að nú skiptir máli að spara gjaldeyri og nýta íslenskt hráefni.“

Bygg er auðugt af trefjaefnum og inniheldur svokallaða beta-glúkana sem eru vatnsleysanleg trefjaefni. Þau eru talin búin þeim eiginleika að lækka kólesteról í blóði og draga úr sveiflum á blóðsykri. Meira magn beta-glúkana er í byggi en hveiti auk þess sem byggið er vítamínríkt og auðugt af flóknum kolvetnum (sterkju), steinefnum og andoxunarefnum. Byggið eykur því trefjainnihald í brauðum en neysla Íslendinga á trefjum er ekki talin nægilega mikil.
Næringarinnihald í 100 g af byggmjöli er 10g prótein, 65,4g kolvetni, 11,3g trefjaefni og 2,0g fita
Bygg er nú ræktað í öllum landshlutum eftir miklar framfarir í kornrækt á síðasta áratug. Unnið hefur verið markvisst að því að laga það að íslenskum aðstæðum með kynbótum. Hingað til hefur íslenskt bygg nánast eingöngu verið notað í dýrafóður. Áhugi til manneldis hefur þó stóraukist á síðustu árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert