ESB-umsókn þolir ekki bið

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Frikki

„Við megum engan tíma missa að sækja um aðild að Evrópusambandinu," sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag. Sagði hann að framtíðarríkisstjórn yrði að vera tilbúin til að skera stjórnkerfið upp og leggja grunn að efnahagslegri endurreisn.

Árni Páll sagði, að ríkisstjórnin hefði unnið að mörgum góðum verkum frá bankahruni en í styrkleika ríkisstjórnarinnar kristallaðist einnig veikleiki hennar. „Við getum ekki litið framhjá þeim veikleika. Þjóðin skynjar hann og við skynjum hann öll: Við tölum ekki nógu skýrt.  Það er  ekki talað með nógu skýrum hætti við fólk og upplifun þjóðarinnar er sú, að hún er ekki virt viðlits," sagði Árni Páll.

Hann sagði að virða ætti fólk þess, að segja hreint út við hverju megi búast. Ekki væri eintómt svartnætti framundan og skuldir sem Íslendingar hafi tekið á sig ættu ekki að verða þjóðinni ofviða. Þá væri staða útflutningstekna góð þegar til lengri tíma er litið.

„En þetta verður samt sem áður erfitt og það mun taka í. Og þess vegna skiptir svo miklu máli á svona örlagastundu að tala skýrt. Framtíðarríkisstjórn, sem horfir til framtíðar, verður að vera tilbúin að gera tvennt af mikilli hörku og einurð. Í fyrsta lagi að gera uppskurð í stjórnkerfi landsins og ganga á hólm við það stjórnkerfi embættismannaklíka og skjallbandalaga sem hefur skilað okkur engu nema óhæfu stjórnkerfi, sem ekki hefur reynst fært um að vara okkur við," sagði Árni Páll.

Hann sagði að einnig þyrfti að leggja grunn að efnahagslegri endurreisn og slík endurreisn yrði ekki nema íslensku efnahagslífi yrði komið í samband við önnur ríki. 

„Íslensku atvinnulífi mun blæða út ef við tökum ekki nauðsynlegar ákvarðanir sem fyrst í gjaldeyrismálum. Þeir stjórnmálamenn sem gæla við þá hugmynd að ýta þessum málum á undan sér út þetta ár, snuddast í þeim milli kaffitíma, eru menn sem ógna brýnustu hagsmunum þjóðarinnar. Við megum engan tíma missa að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er grundvallaratriði til að hefja endurreisn íslensks atvinnulífs," sagði Árni Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka