Fordæma árásir á lögreglumenn

Frá átökum lögreglunnar við mótmælendur í nótt.
Frá átökum lögreglunnar við mótmælendur í nótt. mbl.is/Golli

Landssamband lögreglumanna fordæmir framgöngu tiltekinna einstaklinga sem beitt hafa lögreglumenn alvarlegu ofbeldi. Fram kemur í tilkynningu frá landssambandinu að stór hópur lögreglumanna sé slasaður eftir atburði undanfarinna daga, og einkum eftir nóttina. 

„Lögreglan hefur þá skyldu að halda uppi lögum og reglu í landinu og lögreglumenn eru einfaldlega að sinna sínum skyldustörfum við þær erfiðu aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu.  Lögreglumenn eru fagmenn sem vinna störf sín af alúð og vandvirkni í hvívetna og munu að sjálfsögðu gera slíkt áfram.  Á það skal einnig minnt að það ástand, sem uppi er í þjóðfélaginu, bitnar ekkert síður á lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra, en öðrum þegnum þessa lands.

Landssamband lögreglumanna höfðar til skynsemi almennings og skilnings um þessa staðreynd og hvetur alla til að gæta hófs við beitingu hins lýðræðislega réttar síns að láta skoðanir sínar í ljós og haldi sig innan marka laganna.  Rétt er að leggja á það áherslu að virði menn lögregluna að vettugi blasir ekkert annað við en algert upplausnarástand í þjóðfélaginu engum til heilla.

Þá vil Landssambandið færa því fólki þakkir sem brugðust við aðstæðum í nótt með því að slá skjaldborg um lögreglumennina og veita þeim vernd gegn grjótkasti,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert