Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeirri ákvörðun sýslumanns Árnesinga fyrr í vikunni að gefa út fleiri hundruð handtökuskipanir á einstaklinga í Árnessýslu vegna þess að viðkomandi mættu ekki í fjárnám. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn félagsins.
„Aðgerðir sýslumanns eru ekki til annars, en að auka á niðurlægingu einstaklinga, valda óþörfum ótta hjá yngstu meðlimum heimilanna og auka á spennuna í þjóðfélaginu.
Það er álit samtakanna, að þetta dæmi sýni hve mikilvægt er, að ríkisstjórn og Alþingi grípi tafarlaust til aðgerða með það að markmiði að vernda heimilin í landinu. Staða heimilanna er afleiðing þeirrar efnahagsstjórnunar undanfarinna ára sem leitt hefur af sér mikilla verðbólgu, háa stýrivexti og hrun krónunnar.
Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að stjórnvöld stöðvi nú þegar aðför að heimilum landsmanna, leiti viðunandi úrræði og hrindi viðeigandi réttarbótum í framkvæmd, þar sem hagsmuna heimilanna er gætt. Bjóðast samtökin til að taka þátt í mótun slíkra úrræða, enda verði gengið rösklega til verks. Jafnframt hvetja samtökin skuldareigendur til að sýna biðlund og skilning í því erfiða árferði sem nú er."