Raddir fólksins segjast harma að saklausir sjónarvottar hafi orðið fyrir barðinu á tilviljanakenndri valdbeitingu lögreglunnar. Í yfirlýsingu frá Röddum fólksins segir að á sama hátt sé ljóst að hlutverk lögreglunnar sé ekki öfundsvert við þessar aðstæður.
Raddir fólksins hafa sent frá sér yfirlýsingu í tilefni af mótmælastöðu við Alþingishúsið í gær og fyrradag. Þar segir að Raddir fólksins hafi vikum saman reynt að ná eyrum ráðamanna þjóðarinnar til að vara þá við afleiðingum sofandaháttar og aðgerðaleysis. Rætt hafi verið við ríkissaksóknara, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra.
„Á þessum fundum hefur boðskapur okkar verið skýr: Það er knýjandi nauðsyn að ríkisstjórnin bregðist tafarlaust við og skipi nýjar stjórnir Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, segi af sér og boði til nýrra kosninga. Því miður hefur ríkisstjórnin þverskallast við að fara að vilja landsmanna. Því er óhjákvæmilegt að þjóðin rísi upp og tjái ráðamönnum vilja sinn á þann kröftuga hátt sem við höfum orðið vitni að í gær og í dag,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segir að Raddir fólksins leggi áherslu á friðsamleg mótmæli. Samtökin segjast harma að saklausir sjónarvottar hafi orðið fyrir barðinu á tilviljanakenndri valdbeitingu lögreglunnar.