Tillaga um að nota orðið skjóla í staðinn fyrir buff hlaut fyrstu verðlaun í nýyrðakeppni í 5.-7. bekk grunnskóla. Alls voru veitt átta viðurkenningar til nemenda fyrir nýyrði.
Íslensk málnefnd hleypti nýyrðakeppninni af stokkunum á degi íslenskrar tungu 16. nóvember síðastliðinn. Alls bárust úrlausnir frá 1763 nemendum í 82 skólum um land allt. Er það um 13% nemenda á þessum bekkjum í skólum landsins, að því er fram kemur í vefriti menntamálaráðuneytis, mrn.is.
Ákveðið vr að veita fyrstu verðlaun fyrir tillögu um að nota orðið skjóla fyrir buff. Vakin er athygli á því að orðið skjóla sé að vísu haft um fötu, en í orðinu felist að það geti verið haft um eitthvað sem „veitir skjól“ og það geri þetta fat svo sannarlega. Annað orð fyrir buff, strokkur, kom ríflega 26 sinnum fyrir en það er einnig notað um ílát til þess að strokka rjóma.
Markmið keppninnar er að vekja athygli á því að unnt er að nota íslensk orð þar sem oft eru notuð erlend orð eða slettur. Aðstandendur keppninnar telja að það markmið hafi náðst.