Samkeppniseftirlitið gerði í morgun húsleit á skrifstofu Fóðurblöndunnar hf. í Reykjavík. Samkvæmt dómsúrskurði frá því í gær sem heimilaði húsleitina telur Samkeppniseftirlitið grun leika á að:
Fóðurblandan vísar báðum framangreindum ávirðingum á bug í tilkynningu, en fagnar því að Samkeppniseftirlitið leiti af sér allan grun um viðskiptahætti þeirra félaga sem um ræðir. Fóðurblandan væntir þess að rannsókn málsins verði hraðað, svo félagið þurfi ekki að sitja undir meintum ávirðingum Samkeppniseftirlitsins um lengri tíma.
„Samkeppni á fóður- og áburðarmarkaði hefur verið mikil undanfarin ár og frekar vaxið en hitt. Markaðurinn er hins vegar fákeppnimarkaður sem skilar sér í einsleitum verðum þegar upp er staðið, enda eru fyrirtæki á þessum mörkuðum að dæma sig út af markaðnum ef verð eru ekki samkeppnisfær.
Fóðurblandan væntir þess að Samkeppniseftirlitið skoði sérstaklega í rannsókn sinni innflutning og sölu Sláturfélags Suðurlands svf. á fóðri frá DLG, sem er stærsti framleiðandi á fóðri í Danmörku og markaðsráðandi þar, en allt bendir til að annað hvort hinn erlendi framleiðandi eða umboðsmaður hans hérlendis niðurgreiði vöruna, til hagsbóta fyrir kaupendur, en slík markaðssetning grefur undan eðlilegri samkeppni. Með sama hætti þá vonar Fóðurblandan að Samkeppniseftirlitið skoði sérstaklega sölu keppinauta þeirra í þeim tilvikum þar sem samtvinnuð er sala á fóðri og/eða áburði með öðrum vörum og þjónustu, s.s. eldsneyti og sláturþjónustu, sem boðin er á vildarkjörum ef keypt er hvoru tveggja, en þessir viðskiptahættir eru í andstöðu við samkeppnislög.
Fóðurblandan lýsir yfir fullum vilja til þess að eiga farsælt samstarf við Samkeppniseftirlitið við að upplýsa um allar staðreyndir máls til að vinda ofan af meintum ranghugmyndum Samkeppniseftirlitsins, og eftir atvikum einnig framkvæmdastjóra Landsambands kúabænda, um verðsamráð við keppinauta félagsins," að því er segir í tilkynningu frá Fóðurblöndunni.