„ÞAÐ eru sumir nemendur mjög illa staddir. Þeir eiga ekki fyrir skólagjöldunum sem þarf að greiða núna í janúar vegna þess að þeir fá ekki lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna í kjölfar breyttra reglna sjóðsins. Þeir fá heldur ekki frekari lánsheimild hjá sínum banka,“ segir Gróa Björg Baldvinsdóttir, varaformaður Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík, HR.
Nemendur sem eru í svokölluðu HMV-námi, háskólanámi með vinnu, við viðskiptadeild HR fá ekki greiðslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, LÍN, nú í janúar hafi þeir ekki lokið 20 einingum á haustönn. Í nýjum reglum sjóðsins, svokölluðum ECTS-reglum sem eru evrópskir staðlar og tóku gildi um mitt síðasta ár, segir að ekkert lán sé afgreitt fyrr en 20 einingum hafi verið lokið.
HMV-nemendurnir stunda nám sitt á vorin, sumrin og haustin og er fullt nám á önn 18 einingar. „Nemendurnir geta fært áfanga af sumarönn yfir á hinar annirnar til þess að vera með 20 einingar á önn. Það er ekkert vandamál,“ segir Jóhann Hlíðar Harðarson, upplýsingafulltrúi Háskólans í Reykjavík.
Gróa bendir á að það sé ekki fyrr en í vor sem nemendur geti verið búnir að bæta einingum af komandi sumarönn við vorönnina. „Það verður erfitt í þessu árferði að brúa bilið þangað til. Við ætlum að skoða þetta mál til þess að kanna hvað hægt sé að gera með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Þetta var ekki vandamál áður en reglunum var breytt.“