Það er í höndum samningsaðila Íslendinga í Icesave-deilunni að leggja fram tillögu um tímasetningu næsta fundar samninganefnda vegna deilunnar.
Til stendur að næsti fundur samninganefndanna fari fram á Íslandi en ekki hefur enn komið fram tillaga um tímasetningu hans, samkvæmt upplýsingum Sigmundar Sigurgeirssonar, upplýsingafulltrúa fjármálaráðuneytisins.
Sigmundur segir ekkert til í því að Íslendingar hafi farið fram á að fundur verði ekki haldinn fyrr en eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins.
Þá segir hann síðasta samningafund nefndanna hafa farið fram í desember en að nefndarmenn hafi haft samband sín á milli í millitíðinni og skipst á gögnum.