Launavísitala í desember 2008 var 353,6 stig og hækkaði um 0,7% frá fyrri mánuði, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan því hækkað um 8,3%. Kaupmáttur launa hefur hins vegar dregist saman um 8,2% síðustu 12 mánuði.
Vísitala kaupmáttar launa í desember var 109,0 stig og lækkaði um 0,9% frá fyrri mánuði.
Fram kemur á vef hagstofunnar að samkvæmt kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga og helstu viðsemjenda, sem undirritaðir voru á tímabilinu frá miðjum nóvember fram í byrjun desember, hafi laun félagsmanna hækkað um 20.300 krónur frá 1. nóvember 2008. Sambærilegir samningar hafi verið undirritaðir á milli annarra viðsemjenda á vettvangi sveitarstjórnarstigsins.