Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segist telja að stjórnarslit séuu það besta sem geti komið fyrir Sjálfstæðisflokkinn eins og málum sé nú háttað. Segir hún hann eins og aðra flokka þurfa að fara í gegn um ákveðna eldskírn í kjölfar atburða undanfarinna mánaða. Þá segir hún rök forsætisráðherra gegn því að boðað verði til kosninga ekki sannfærandi.
„Þrátt fyrir yfirlýsingar Geirs H. Haarde forsætisráðherra um góða samstöðu hans og formanns Samfylkingarinnar um að halda núverandi stjórnarsamstafi áfram virðist það blasa við út á við að þetta stjórnarsamstarf er dautt,” sagði Stefanía er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í dag. „Það heldur engin ríkisstjórn af því að tveir einstaklingar eru búnir að ákveða það.”
Stefanía segist telja að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sé að einangrast í afstöðu sinni til stjórnarsamstarfsins og að þó að þingmenn Sjálfstæðisflokksins fari ekki eins hátt með efasemdir sínar skynji almenningur vaxandi óróa meðal þeirra.
„Verði boðað til kosninga fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins mun það gefa flokksmönnum tækifæri til að endurmeta stefnu sína og forystu. Það væri því ákveðin opnun fyrir þann fund. Ekki síst þar sem stór hópur sjálfstæðismanna er trygglynt fólk sem leggur mikið upp úr því að standa með sínum forystumönnum. Þetta er fólk sem mun aldrei standa upp gegn sitjandi formanni, sem einnig er forsætisráðherra í ríkisstjórn.”
Stefanía segir það einnig kvíðvænlegt verði landsfundur Sjálfstæðisflokksins haldinn á meðan hávær mótmæli fari fram. Líkt sé í raun þvingun sem muni hamla lýðræðislegum viðræðum. „Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á slíkt. Það er ekki hægt að bjóða almenningi upp á fleiri svona kvöld, þegar fólk og heimili eru hreinlega í stórhættu,” segir hún.
En er það lýðræði að nokkur þúsund manns geti hrakið ríkisstjórn frá völdum?
„Það er rétt að það eru ekki nema um tvöþúsund manns sem hafa tekið virkan þátt í mótmælunum undanfarna daga og af þeim eru ekki nema nokkrir tugir sem hafi gengið enn lengra,” segir Stefanía. „Almenningur er hins vegar með það á tilfinninguna að það ríki upplausnarástand. Það þarf að binda enda á það og ef eina leiðin til þess og að koma á friði í samfélaginu, er að boða til kosninga, þá þarf að gera það. Það er ekki hægt að stjórna með lögregluvaldi. Við höfum bara ekki efni á því hvorki fjárhagslega né samfélagslega. Á slíkum tímum þurfum við að standa saman.”
Stefanía segir að geti sitjandi ríkisstjórn ekki náð sambandi við þjóðina og slegið á örvæntingu fólks verði einhverjir aðrir að fá tækifæri til þess. Þá segir hún að kosningabarátta, eins og sér með þeim umræðum sem henni fylgi, geti einnig skilað miklum árangri. Hún geti hjálpað bæði almenningi og stjórnmálamönnum við að skerpa sýn sína og fá yfirsýn yfir hlutina.
Einnig bendir hún á að erlendir sérfræðingar hafi kallað eftir því að íslenskir ráðamenn endurnýi umboð sitt til að auka trúverðugleika Íslendinga út á við.
Rök forsætisráðherra ekki sannfærndi
Stefanía segir þó vel hugsanlegt að mjög erfitt muni reynast að mynda nýja stjórn að loknu slíku ferli. „Það er ekkert endilega víst að við fáum betri fólk eða betri stjórn en við fáum a.m.k. fólk með endurnýjað umboð,” segir hún.
Að lokum segist Stefanía hafa mikla samúð með formanni Samfylkingarinnar, sem sé að berjast við erfið veikindi, á sama tíma og hún sé undir miklu álagi vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Það sama eigi við um aðra forystumenn stjórnarinnar. Það séu allir að gera sitt besta undir gríðarlegu álagi. Hún líti hins vegar ekki á það sem uppgjöf að boða til kosninga við slíkar aðstæður, heldur sé það raunsæi.