Hæstiréttur hefur staðfest sýknudóm Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir manni sem gefið var að sök að hafa tvisvar til þrisvar rassskellt tvo drengi, sex og fjögurra ára, syni kærustu sinnar. Í dómi Hæstaréttar segir að flengingin standist barnaverndarlög.
Móðir drengjanna kynntist manninum á spjallrás á netinu. Hófu þau að hittast og sýndi maðurinn mikinn áhuga á að hitta syni hennar, en þeir dvöldu hjá henni þrjár helgar í mánuði. Hann hafi viljað fá að vita um hvert einasta skipti sem þeir gerðu eitthvað af sér og varð konan við þessu. Hafi hann þá farið með annan drenginn í einu inn í herbergi og rassskellt hann og að því loknu hafi hann borið olíu á rassinn á honum. Í eitt skipti var móðir drengjanna viðstödd.
Maðurinn var líka ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa ítrekað slegið móðurina á beran rassinn með beltisól. Hann var sýknaður þar sem
sýnt þótti að athæfið hefði verið hluti kynlífsathafna þeirra, og með samþykki konunnar, og „ákærði kveðst hafa sérstakan huga á flengingum og bindileikjum (BDSM) í kynlífi,“ eins og segir í héraðsdómi.