Það var nöturleg aðkoma sem mætti forseta þingsins þegar hann kom í þinghúsið í morgun. Brotnar rúður, málningarslettur, og önnur ummerki eftir átök á Austurvelli í nótt þar sem lögregla beitti táragasi. Gríðarleg spenna er í þinghúsinu.
Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ekki verið kallaður til fundar til að ræða stöðuna í ljósi vilja Samfylkingarinnar í Reykjavík og fleiri flokksfélaga. Ljóst er þó að þingmennirnir ráða ráðum sínum í öllum hornum.
Eftir að spurðist út að fundurinn hefði ályktað um stjórnarslit og kosningar dönsuðu mótmælendur af fögnuði.
Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur, sagði að ríkisstjórnin myndi varla lafa út vikuna úr þessu. Hann sagðist telja að mikilla tíðinda og breytinga væri að vænta, jafnvel strax í dag.