Boðað hefur verið til mótmæla gegn ofbeldi og eignaspjöllum. Mótmælin fara fram á Lækjartorgi næstkomandi sunnudag.
Í tilkynningu segir að á sunnudag gefist tækifæri fyrir alla, sama hvaða stjórnmálaskoðanir þeir hafa, til að mótmæla þeim ofbeldisaðferðum sem afmarkaður hópur hafi beitt að undanförnu.
„Þetta er vettvangur fyrir þá sem vilja hvetja samborgara okkar
til að sýna stillingu og mótmæla með friðsamlegum hætti. Mikilvægi þess að við búum í friðsamlegu samfélagi, þar sem rödd og penna er beitt í stað hnefa og grjóts, verður ekki vanmetið,“ segir í tilkynningunni.
Mótmælin verða á Lækjartorgi sunnudaginn 25. janúar og hefjast klukkan 15.