„Það er rétt að við hittumst, við Össur, til að fara almennt yfir stöðuna og horfurnar framundan,“ sagði Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, um fund hans og Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra og starfandi utanríkisráðherra, í gær. Ögmundur sagði góða gangvegi milli þeirra Össurar og að ekki megi gera of mikið út úr þessum óformlega fundi.
„Það er öllum ljóst hvernig komið er og það ber öllum skylda til að kanna með hvaða hætti þeir geti lagt eitthvað gott til málanna,“ sagði Ögmundur. Hann sagði jafnframt að viðræður þeirra Össurar hafi ekki verið formlegar, enda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar enn í Stjórnarráðinu. Ögmundur sagði það vera ríkisstjórnarinnar að stíga næstu skref. „Það er að slíta stjórnarsamstarfinu og boða til kosninga. Það er sú áhersla sem við höfum uppi, Vinstri hreyfingin grænt framboð, að verða við kröfum um kosningar sem allra fyrst. Þá erum við að tala um allra næstu vikur.“
En hver átti frumkvæði að fundinum?
„Það eru ágætir gangvegir milli okkar Össurar Skarphéðinssonar og við ræðumst mjög oft við, þannig að það er rangt að gera of mikið úr þessum fundi,“ sagði Ögmundur.
En var þá tilefnið ekki að ræða mögulega stjórnarmyndun?
„Tilefnið var að ræða þá stöðu sem nú er uppi. Auðvitað höfum við áhuga á að vita hvernig ráðherrar Samfylkingarinnar meta hugsanlega framvindu í þeim efnum,“ sagði Ögmundur. Hann sagði aðstæður nú vera mjög sérstakar og mætti furðu sæta ef menn töluðust ekki við um möguleikana framundan.
Ögmundur kvaðst ekkert geta sagt um niðurstöðu þessa fundar. „Ég býð þess að sjá hvaða ákvörðun Samfylkingin tekur um framhaldið,“ sagði Ögmundur. En á hann von á ákvörðun hennar fljótlega?
„Mér finnst grasrótin vera að senda mjög skýr skilaboð. Þessar yfirlýsingar úr Stjórnarráðinu um að það megi ekki skapa upplausnarástand í samfélaginu með kosningum eru byrjaðar að hljóma hálf undarlega fyrir þá sem horfa á það sem er raunverulega að gerast hér í þjóðfélaginu. Hér er að skapast mjög alvarlegt öngþveiti og það er ábyrgðarhluti að bregðast ekki við. Þegar krafan er lýðræði þá skil ég ekki hvað vakir fyrir stjórnvöldum að þverskallast við.“