SA: Skapa þarf 20 þúsund ný störf

Þór Sigfússon
Þór Sigfússon Sverrir Vilhelmsson

Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir að það þurfi að skapa 20 þúsund störf til ársins 2015. Þetta kom fram í máli Þórs á blaðamannafundi samtakanna í dag. Samtök atvinnulífsins munu á næstunni freista þess að ná samkomulagi við Alþýðusamband Íslands og önnur samtök og leggja grunn að kjarasamningum og stöðugleika á vinnumarkaði til næstu ára.

Segir Þór að engar töfralausnir séu til en við eigum að hafa skýra framtíðarsýn og leiðarvísi. „Tillögur Samtaka atvinnulífsins að hagsýnni, framsýnni og áræðinni atvinnustefnu eru innlegg í umræðu um hvernig við snúum vörn í sókn og byrjum að skapa störf.

Sá efnahagsskellur sem Íslendingar hafa orðið fyrir er af nánast áður óþekktri stærðargráðu í nútímasögunni. Bankakerfið hrundi nánast eins og það lagði sig á einni viku og gengi íslensku krónunnar lækkaði meira en nokkurn gat órað fyrir.<p>

Afleiðingarnar eru rekstrarerfiðleikar fyrirtækja og vaxandi atvinnuleysi. Það er í senn megin áhyggjuefnið og viðfangsefnið á næstunni. Það er nauðsynlegt að marka leið út úr þeim ógöngum sem íslenska þjóðarbúið hefur ratað í. Með því að allir viti hvert stefnt er og hvaða leið skuli farin er von til þess að efnahagsvandinn vari skemur en ella. Þannig getum við líka sagt atvinnuleysinu stríð á hendur og skapað störf fyrir stóran hóp ungra Íslendinga sem kemur á vinnumarkaðinn á næstu árum. Það er megin verkefni atvinnulífsins á komandi misserum," að sögn Þórs Sigfússonar í nýrri atvinnustefnu Samtaka atvinnulífsins.

Vilja fresta öllum launahækkunum til hausts

Samtök avinnulífsins telja mikilvægt að leita samkomulags um breytingar og æskilegt er að tryggja frið á vinnumarkaði á næstu misserum. Þær leiðir sem til greina koma eru m.a. að fresta öllum launahækkunum fram á haust og taka þá ákvörðun um framlengingu samninga eða uppsögn en þá mun liggja betur fyrir hvernig efnahagslægðin þróast og hversu mikið vextir og verðbólga hafa lækkað.

Þá kemur til greina að ákveða strax nýja tímapunkta fyrir þær hækkanir sem samið hefur verið um annað hvort með eða án opnunarákvæðis á milli hækkana til þess að endurmeta stöðuna. Ennfremur kemur til greina að launahækkunum 1. mars verði frestað og taki gildi t.d. í byrjun næsta árs. Á síðari hluta árs 2010 verði síðan ákveðið hvenær umsamin launahækkun 1. janúar 2010 komi til framkvæmda, að því er segir í atvinnustefnu Samtaka atvinnulífsins.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert