Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að eftir yfirlýsingar Jóhanns Sigurjónssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar, sé vanhæfi hans algert til að koma að veiðiráðgjöf næstu ára í þorski. Friðrik segir einsýnt að ráðherra þurfi að kalla eftir mati óháðra vísindamanna á mælingum og ráðgjöf Hafró á næstu árum komi forstjórinn þar að málum. Þetta kemur fram í grein framkvæmdastjóra LÍÚ í Fiskifréttum í dag.
Friðrik Arngrímsson segir í greininni að forstjóri Hafró sé með upphrópanir, og vísar þar til yfirlýsingar forstjóra Hafró þess efnis að ákvörðun sjávarútvegsráðherra um 30 þúsund tonna aukningu þorskkvótans sé vonbrigði.
Þá segir framkvæmdastjóri LÍÚ að það sé mikilvægt að sérfræðingar sem vinna á stofnunum eins og Hafró, hafi óheft svigrúm til að setja fram skoðanir sínar og vísindaráðgjöf án hagsmunapólitískrar íhlutunar. Það sé jafn nauðsynlegt fyrir starfsmenn Hafró að nýta sér þekkingu og upplýsingar sem finnast í ríkum mæli hjá þeim sem starfa utan stofnunarinnar, þ.m.t. í sjávarútvegi.
„Það væru ömurleg örlög stofnunar eins og Hafrannsóknastofnunarinnar að lokast inni í fílabeinsturni fáfræði sinnar. Rétt er að taka fram að gott samstarf á sér stað á milli sérfræðinga stofnunarinnar og atvinnugreinarinnar á ýmsum sviðum, þó að gliðnað hafi á milli á öðrum.
Eftir marsrallið í vor mun Hafrannsóknastofnunin kynna veiðiráðgjöf sína í þorski fyrir næsta fiskveiðiár. Sama mun gerast á næstu árum. Vanhæfi forstjóra stofnunarinnar til að koma að veiðiráðgjöf næstu ára í þorski er algjört í ljósi yfirlýsinga hans. Hvernig ætlar hann að bregðast við ef mælingar stofnunarinnar sýna vöxt í stofninum eftir yfirlýsingarnar? Einsýnt er að ráðherra þarf að kalla eftir mati óháðra vísindamanna á mælingum og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar á næstu árum komi forstjórinn þar að málum,“ segir Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.