Vilja endurskoðun skipulagsins

Mörg hús sem stóðu á Slippareitnum eru nú horfin til …
Mörg hús sem stóðu á Slippareitnum eru nú horfin til að rýma fyrir nýjum byggingum. Arnaldur Halldórsson

Stjórnir Íbúasamtaka Vesturbæjar og Íbúasamtaka Miðborgar telja að nýtt skipulagsslys sé í uppsiglingu á Slippareitnum. Þær hafa sent hafnarstjórn og skipulagsráði samþykkt þar sem segir m.a. að skipulag reitsins hafi verið samþykkt í beinni andstöðu við íbúa næsta nágrennis. 

Stjórnir íbúasamtakanna segjast telja „að skipulagsvinna borgaryfirvalda hafi undanfarin ár einkennst um of af vinnu við einstaka skipulagsreiti án tillits til næsta nágrennis og lítt verið hirt um að skapa heilstætt skipulag.

Enn eitt skipulagsslysið er nú í uppsiglingu, en það er skipulag Slippareits sem þegar hefur verið samþykkt af borgaryfirvöldum. Skipulagið var því miður samþykkt án mikils samráðs við íbúa og í beinni andstöðu við íbúa næsta nágrennis og er úr öllum tengslum við nánasta umhverfi.

Sögu svæðisins er varpað fyrir róða af miklu virðingarleysi og ekki tekið tillit til þess anda sem þar ríkir. Einnig er óvíst um hvort rannsakað hafi verið nægilega hvort einhverjar fornar minjar kunni að finnast á svæðinu. Ef fram fer sem horfir verður fátt sem minnir á þá sjósókn sem Reykjavík byggðist upp á. Eðlilegt væri í tengslum við Sjóminjasafnið að varðveita skipasmíðar á þessum reit og viðhalda annarri „hafnsækinni“ starfsemi.  Þannig verði dráttarhús gamla slippsins varðveitt til að minna á fyrri starfsemi ásamt því að gert verði ráð fyrir lítilli dráttarbraut á svæðinu sem sé í notkun.

Nú í ljósi nýrra hugmynda um stóra hótelbyggingu á Slippareit við Ægisgarð teljum við enn mikilvægara að svæðið verði skoðað sem ein heild. 

Fyrirhugaðar byggingar á Slippareit eru í stórkarlalegum stíl hvað varðar hæð, breidd og stærð og munu verða sem múr milli  fínlegrar byggðar í Vesturbæ Reykjavíkur og sjávar. Við teljum einnig að þegar séu til staðar víti til varnaðar þar sem eru háhýsi í Skugganum við Skúlagötu og háhýsi við Höfðatún sem ekki einungis treður á nánasta umhverfi sínu heldur skyggir líka á sjálfan Sjómannskólann og innsiglingavita hafnarinnar þar með. Þá er rétt að benda á  Norðurbakkann í Hafnarfirði sem þegar er byggður að hluta og líkist ofangreindri skipulagstillögu verulega og mætti af því læra. Hús sem nú er byrjað að reisa á reit Hraðfrystistöðvar verður skipulagsyfirvöldum til hneisu vegna stærðar og hæðar ef byggt verður skv. samþykktum teikningum og þyrfti að leita allra leiða til færa það til betri vegar. Þá hafa hinir gömlu stígar sem liggja frá Vesturgötu eins og Brunnstígur og Bakkastígur sem minna á sjósókn og skipasmíðar verið nánast strikaðir út. Hægt væri a.m.k. að varðveita Bakkstíg og útsýni niður í slipp eins og nú er.


Stjórnir félaganna fara því fram á að í tengslum við fyrirhugaða samkeppni um hafnarsvæðið verði skipulag Slippasvæðis tekið með og endurskoðað. Þannig verði svæðið allt frá Tónlistarhúsi og út í Örfirisey skipulagt sem ein heild.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert