„Við viljum ekki ofbeldi“

Táragasi var beitt á Austurvelli í nótt.
Táragasi var beitt á Austurvelli í nótt. mbl.is/Júlíus

„Nú ætlum við að reyna að grípa inn í, þetta má ekki fara svona,“ segir Hörður Torfason, talsmaður Radda fólksins sem staðið hefur fyrir friðsömum mótmælafundum á laugardögum.  Atburðir næturinnar komu illa við Hörð, sem sjálfur varð þó ekki vitni að þeim. Hann samsinnir að ástandið sé komið á óæskilegt stig.

„Ég ber ákveðna ábyrgð, ég sem byrjaði mótmælin á Austurvelli og bar áfram þessi skilaboð. Það er litið til mín, ég finn það á símanum og ímeilunum og öllu saman í morgun,“ segir Hörður. Mótmælaaðgerðirnar sem staðið hafa síðan á mánudag eru ekki fyrirfram skipulagðar en Hörður segist skynja að nú þurfi að gefa út yfirlýsta stefnu til að reyna að hafa áhrif á fjöldann.

„Það þarf alltaf einhver að taka af skarið og það virðist beinast að mér, og það er bara allt í lagi. Ég lá aðeins yfir þessu í morgun og ég held að það sé langbest að hvetja fólk, sem kemur niður á Austurvöll, að sameinast um það þegar það sér einhvern kasta grjóti eða fara yfir strikið, að umkringja þann einstakling og reyna að tala hann til vinsamlega. Ekki með neinu offorsi, heldur sýna að þetta er ekki það sem við viljum.“

Sjónvarvottar að atburðunum í nótt lýstu því hvernig mótmælendur gengu á milli þegar lítill fjöldi manna tók að kasta kantsteinum að lögreglu. „Þetta er eins og alltaf, það er einn af hverjum 20 eða minna sem haga sér svona, en þegar einn og einn einstaklingur byrjar á þessu þá vilja menn ekki blanda sér í málin,“ segir Hörður. „Ekki nema það sé yfirlýst stefna gegn þessu, og við erum að vinna að því að koma þeim skilaboðum til fólksins, að sameinast um að ræða þetta fólk niður. Ég held að þetta sé besta lausnin, það þarf bara 2-3 til að tala einn niður.“

Hætt er við því að atburðir líkt og í nótt komi illu orði á þann meirihluta sem mótmælir með friðsömum hætti, og vill Hörður koma í veg fyrir það. „Þetta hleypir bara illu blóði í fólk. Við viljum ekki ofbeldi.“

Hörður Torfason segir litið til sín eftir því að lægja …
Hörður Torfason segir litið til sín eftir því að lægja öldurnar Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka