100 manns mótmæltu á Akranesi

Um 100 manns mættu á mótmælafund sem haldinn var á Akratorginu á Akranesi í dag.  „Tilefni fundarins var að mótmæla því grafalvarlega ástandi sem nú ríkir í íslensku atvinnu- og efnahagslífi,“ segir á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness. 

Þau sem stóðu fyrir þessum fundi voru Anna Lára Steindal og Kristinn Pétursson. Sá síðarnefndi hélt ræðu þar sem hann fordæmdi það aðgerða- og úrræðaleysi sem ríkt hefur hjá stjórnvöldum frá hruni bankanna, að því segir á síðunni.

Skipuleggjendur fundarins óskðu eftir því að formaður Verkalýðsfélags Akraness myndi flytja ræðu á fundinum og varð hann við þeirri ósk.  Í ræðu formanns kom m.a. fram að það væri frábært að sjá þann árangur sem mótmælin á höfuðborgarsvæðinu væru búin að skila, en sem kunnugt er virðast miklar líkur á að kosið verið til Alþingis 9 maí í vor.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði að draga þyrfti „þá aðila innan fjármálakerfisins til ábyrgðar sem mögulega bera ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi og einnig þá aðila innan stjórnsýslunar sem brugðist hafa sínu eftirlitshlutverki.“

Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, sagði að lokum í sinni ræðu að þau gildi  sem ríkt hafa í íslensku samfélagi á liðnum árum og áratugum þurfi að heyra sögunni til.  „Þau gildi sem um ræðir lúta að græðgi, sérhagsmunagæslu og hroka í garð almennings.  Það þarf að taka upp ný gildi í íslensku samfélagi, gildi sem lúta jöfnuði, réttlæti og virðingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert