„Hvað er hann að draga veikindi sín fram í dagsljósið núna?“ sagði Hörður Torfason þegar hann var inntur eftir viðbrögðum Radda fólksins við tíðindum af veikindum Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og tillögum um kosningar 9. maí. Hörður segir að ekki verði slegið af í mótmælunum þrátt fyrir tillöguna. Þetta sé þó hænuskref í rétta átt.
„Ef nokkuð þá eflumst við í baráttunni,“ sagði Hörður jafnframt. Hann neitaði því að kröfum Radda fólksins hefði verið mætt. „Þetta eru bara pólitískar reykbombur, þetta er hænuskref í áttina en maður sér í gegnum svona leiki.“
Hörður segir meira í húfi en svo að hægt sé að taka mark á svo óljósri tillögu og Geir hafi ekki sagt af sér.
Hörður undrast að Geir hafi dregið veikindin fram í dagsljósið á þessum tímapunkti. „Það er til dálítið sem heitir einkalíf og svo er stjórnmálalíf. Það er tvennt ólíkt.“
Málið segir hann að verði skoðað en nú dragi ekki úr mótmælunum. „Ef nokkuð er þá berjum við bara fastar í vegginn,“ segir Hörður, kröfurnar séu enn þær sömu; að ríkisstjórnin fari frá og kosningar verði ákveðnar. „Geir er ekki að segja af sér og stjórnin ætlar að halda áfram og þetta er einhver óljós tillaga um um kosningar.“
Mótmælin segir hann munu halda áfram af fullum krafti á morgun og laugardag. „Það verður að sjást í gegnum þetta reykkóf sem stjórnmálamenn eru að blása upp. Við viljum breytt kerfi, við viljum breytingar á þessu þjóðfélagi. Þetta er úr sér gengið kerfi, valdaklíkur og spilling og við gefum ekkert eftir af okkar kröfum. Þá værum við lítils virði,“ segir Hörður Torfason, forsvarsmaður Radda fólksins.