Borgarráð hefur að tillögu velferðarráðs samþykkt að Reykjavíkurborg gangi til samstarfs við Hjálpræðisherinn um starfsemi fyrir utangarðsfólk í dagsetri Hjálpræðishersins í Reykjavík.
Velferðarsvið leggur til fagmenntaðan starfsmann til að vinna að uppbyggingu iðju fyrir utangarðsfólk í dagsetrinu og þrjár milljónir króna til sameiginlegs rekstrar á árinu samkvæmt samningsdrögum. Hjálpræðisherinn tryggir aðstöðu fyrir starfsmann velferðarsviðs.
Þetta samstarf er í samræmi við stefnu í málefnum utangarðsfólks sem samþykkt var í velferðarráði 9. september sl. Í aðgerðaáætlun með stefnunni er m.a. gert ráð fyrir að tryggð verði aðstaða til iðju fyrir utangarðsfólk.
Hjálpræðisherinn rekur nú þegar dagsetur fyrir utangarðsfólk í Reykjavík. Engin skipuleg iðja fer fram í dagsetrinu þó húsnæðið bjóði upp á mikla möguleika í því sambandi. Eins og áður segir gerir samningur Reykjavíkurborgar og Hjálpræðishersins ráð fyrir að velferðarsvið af hálfu Reykjavíkurborgar leggi til fagmenntaðan starfsmann til að vinna að faglegri uppbyggingu iðju fyrir utangarðsfólk í húsinu auk rekstrarstyrks. Stefnt er að undirritun samstarfssamningsins í byrjun næstu viku.