Landsfundur færður nær kosningum?

Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.

Tekið verður fyrir hvort seinka eigi landsfundi Sjálfstæðisflokksins á miðstjórnarfundi flokksins, sem haldinn verður í hádeginu í dag, og einnig verður rætt um stjórnarsamstarfið. Þetta verður sameiginlegur fundur þingflokks og miðstjórnar.

Búast má við því að Geir H. Haarde forsætisráðherra og formaður flokksins mæli fyrir því að landsfundi verði frestað, jafnvel þar til í apríl. Það er rökstutt með því að ekki sé hægt að halda hann í lok janúar af öryggisástæðum, auk þess sem búast megi við að kosningar verði haldnar í maí og því sé ráðlegt að færa landsfundinn nær kosningum – venjan sé að halda landsfund fimm vikum fyrir kosningar.

Einnig verður stjórnarsamstarfið rætt. Geir H. Haarde hefur lýst yfir vilja til að halda áfram stjórnarsamstarfinu fram að kosningum. Heyra má því til stuðnings að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafi tekið undir það og það beri að láta reyna á staðfestu og trúverðugleika hennar, enda skipti máli hver það verði sem hlaupi frá samstarfinu.

Einnig heyrast þau sjónarmið innan Sjálfstæðisflokksins að Samfylkingin hafi þegar sýnt að hún sé óstjórntæk með yfirlýsingum sínum undanfarna daga, meðal annars ályktun Samfylkingarfélagsins í Reykjavík um að skorað væri á þingflokk Samfylkingarinnar að slíta stjórnarsamstarfinu strax. Þess vegna eigi Sjálfstæðisflokkurinn nú þegar að hafa frumkvæði að því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka