Sextándi mótmælafundurinn á morgun

Frá mótmælafundi Radda fólksins Austurvelli nýlega.
Frá mótmælafundi Radda fólksins Austurvelli nýlega. mbl.is/Júlíus

Boðað hefur verið til mótmælafundar á Austurvelli klukkan 15 á morgun. Er þetta 16. laugardagurinn í röð, sem samtökin Raddir fólksins standa fyrir slíkum fundum í miðborg Reykjavíkur og er yfirskrift fundarins  sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu.

Fram kemur í tilkynningu að Raddir fólksins harmi alvarleg veikindi Geirs H. Haarde forsætisráðherra og óska honum velfarnaðar og góðs bata. Þá fagna samtökin einnig velheppnaðri aðgerð á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og bjóða hana velkomna heim.

„Þrátt fyrir áfangasigur með yfirlýsingu um kosningar 9. maí nk. má ekki slaka á. Þjóðin getur ekki búið við vanhæfa ríkisstjórn deginum lengur. Sömu stjórnirnar sitja sem fastast í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og útrásarvíkingarnir leika lausum hala. Sameinumst um að reka endahnút á siðleysi og spillingu – hefjum vorhreingerningar í íslenska stjórnkerfinu," segir í tilkynningunni.

Ávörp á fundinum flytja Magnús Björn Ólafsson, blaðamaður, Hildur Helga Sigurðardóttir, blaðamaður, Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur og Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur.  Fundarstjóri verður Hörður Torfason.  Útvarpað verður frá fundinum á Rás 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert