Stjórn Vorboða sjálfstæðiskvenna í Hafnarfirði harmar og mótmælir þeirri ákvörðun að leggja niður starfsemi St. Jósefsspítala í núverandi mynd og fer fram á að þessi umdeilda ákvörðun verði þegar endurskoðuð. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn Vorboða.
„Hafnarfjörður er stórt bæjarfélag og sú þjónusta sem bæjarbúar njóta frá St. Jósefsspítala er mjög mikilvæg fyrir íbúa bæjarins. Þessi ákvörðun er óásættanleg fyrir bæjarfélag með u.þ.b. 30.000 íbúa að missa sitt eina sjúkrahús og þurfa að sækja alla þjónustu til nágrannasveitarfélaga eins og tillaga ráðuneytisins gerir ráð fyrir. Spítalinn hefur í 82 ár gegnt mikilvægu hlutverki í bæjarfélaginu. Þetta stór vinnustaður og í ljósi núverandi aðstæðna í þjóðfélaginu er tímasetning svo fyrirvaralausrar og illa kynntrar aðgerðar enn erfiðari öllum sem að koma og bæjarfélaginu engan veginn til framdráttar.
Það er ábyrgðarhluti að umturna aðstæðum allra þeirra sem að St. Jósefsspítala standa á þessum erfiðu tímum. Í stað lokunar væri eðlilegt að gefa þeim sem standa að rekstri spítalans í samráði við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, tækifæri til að koma með raunhæfar tillögur um sparnað svo ná megi markmiðum ráðuneytisins. Félagið skorar á heilbrigðisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson að endurskoða fyrri ákvörðun," að því er segir í ályktun.