Starfsfólk Vinnumálastofnunar gerir ráð fyrir því að á bilinu 2.000-3.000 Íslendingar flytji af landi brott á næstu mánuðum. Þetta kom fram í fyrirlestri Karls Sigurðssonar, forstöðumanns vinnumálasviðs Vinnumálastofnunar, í Háskóla Íslands í dag.
„Við höfum í raun ekki neina góða mynd af því. Flestir fara bara án þess að við fréttum af því. Það er tilkynnt til hagstofu en þær upplýsingar eru ekki uppfærðar nema á þriggja mánaða fresti,“ sagði Karl. Fólk sem vill fara erlendis í atvinnuleit fær hins vegar vottorð hjá Vinnumálastofnun, og á útgáfu þeirra vottorða hefur verið aukning að undanförnu, sem gefur vísbendingu þó ónákvæm sé.
Þá lét stofnunin gera könnun í nóvemberlok þar sem mikill vilji kom fram til búferlaflutninga, að sögn Karls. Svipuð niðurstaða kom fram í könnun sem ASÍ lét gera. „Við gerum ráð fyrir því að um 2.000-3.000 íslendingar fari af landi brott á næstu mánuðum,“ sagði Karl.