Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir mjög erfitt að spá nokkru um þróun mála í íslenskum stjórnmálum eftir að Geir H. Haarde gerði grein fyrir veikindum sínum í morgun og því að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans í mars.
„Mér er brugðið að heyra af veikindum hans og ég vona að hann nái sem fyrst heilsu á ný,” sagði hún er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í dag.
„Hvað varðar þær ákvarðanir að fresta landsfundi sjálfstæðisflokksins og stefna á kosningar í vor þá finnst mér þær skynsamlegar. Þannig finnst mér tímasetning landsfundarins í mars mjög heppileg. Hún gefur þeim sem íhuga framboð svigrúm til þess og okkur öllum svigrúm til að ná örlítið meiri yfirsýn yfir stöðuna."
Stefanía segir nær útilokað að spá nokkru um framhaldið á þessari stundu en að hún hafi þó tekið eftir því í máli Steingríms J. Sigfússonar í sjónvarpsviðtali strax eftir yfirlýsingu forsætisráðherra, að hann virtist ekki vera jafn harður og áður í afstöðu sinni gegn Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og áður. Sagðst hún hafa túlkað það svo að hann vildi nú sýna flokk sinn sem ábrygan og stjórntækan kost.
"Þetta er svolítið skondið í ljósi þess að fyrr í vikunni snérist umræðan um það hvort Samfylkingin væri stjórntækur flokkur, sagði Stefanía.
Spurning hvort Þorgerður bjóði sig fram
Spurð um hugsanlegan eftirmann Geirs sagði Stefanía enn mjög erfitt að spá nokkru um það. „Það hafa allt í einu opnast þarna dyr en það á eftir að kom aí ljós hverjir reyni að nýta sér það. Það á til dæmis enn eftir að koma í ljós hvort Þorgerður Katrín, varaformaður flokksins, sækist eftir formannsembættinu og hverjir bjóði sig þá fram á móti henni. Það er hefð fyrir því innan flokksins að bjóði varaformaður sig fram þá hljóti hann formannsembættið en þó er ómögulegt að slá nokkru föstu um það."
Hún segir að einnig verði áhugavert að sjá hverjir bjóða sig fram í önnur embætti þar sem einnig sé hef fyrir því innan flokksins að fólk geri sig gildandi innan hans með framboðum til æðstu embætta hans.”
Stefanía sagðist helst hafa heyrt nöfn Bjarna Benediktssonar , Kristjáns Þórs Júlíussonar og Gunnlaugs Þórs heilbrigðisráðherra nefnd í slíku sambandi en að ekkert hafi verið staðfest í þeim efnum og enn geti mjög margt gerst.”