Baðst afsökunar á ummælum

Mannfjöldi er á Austurvelli.
Mannfjöldi er á Austurvelli. mbl.is/Golli

Hörður Torfason, forsvarsmaður samtakanna Radda fólksins, hóf útifund á Austurvelli í dag með því að biðjast afsökunar á ummælum sem hann lét falla um Geir H. Haarde, forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær. Sagðist hann einnig hafa hringt í aðstoðarmann Geirs í morgun og beðist afsökunar.

Ummælin birtust á vefnum mbl.is. Þar var Hörður spurður um veikindi forsætisráðherra og svaraði: „Hvað er hann að draga veikindi sín fram í dagsljósið núna?“ Þessi ummæli sættu afar harðri gagnrýni bloggara.

Hörður sagðist í upphafi útifundarins vilja óska Geir bata og styrk í erfiðum veikindum. Þá sendi Hörður Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, baráttukveðjur vegna veikinda hennar. 

Mannfjöldi er á útifundinum. Þar flutti Magnús Björn Ólafsson, blaðamaður, m.a. ávarp og gagnrýndi þá sem grýtti lögreglumenn í mótmælum á Austurvelli og reyndu að kveikja í Alþingishúsinu. Sagði hann að litlum hópi hefði næstum tekist að eyðileggja þrotlaust starf þúsunda, sem unnið hefðu að því undanfarna mánuði að byggja upp nýtt og réttlátara þjóðfélag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka