Hörður Torfason, forsvarsmaður samtakanna Radda fólksins, hóf útifund á Austurvelli í dag með því að biðjast afsökunar á ummælum sem hann lét falla um Geir H. Haarde, forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær. Sagðist hann einnig hafa hringt í aðstoðarmann Geirs í morgun og beðist afsökunar.
Ummælin birtust á vefnum mbl.is. Þar var Hörður spurður um veikindi forsætisráðherra og svaraði: „Hvað er hann að draga veikindi sín fram í dagsljósið núna?“ Þessi ummæli sættu afar harðri gagnrýni bloggara.
Hörður sagðist í upphafi útifundarins vilja óska Geir bata og styrk í erfiðum veikindum. Þá sendi Hörður Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, baráttukveðjur vegna veikinda hennar.
Mannfjöldi er á útifundinum. Þar flutti Magnús Björn Ólafsson, blaðamaður, m.a. ávarp og gagnrýndi þá sem grýtti lögreglumenn í mótmælum á Austurvelli og reyndu að kveikja í Alþingishúsinu. Sagði hann að litlum hópi hefði næstum tekist að eyðileggja þrotlaust starf þúsunda, sem unnið hefðu að því undanfarna mánuði að byggja upp nýtt og réttlátara þjóðfélag.