Björn: Mikilvægt að búið sé að velja landsfundarfulltrúa

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. mbl.is/Brynjar Gauti

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir mikilvægt að fulltrúar hafi verið valdir á landsfund Sjálfstæðisflokksins áður en ljóst var, að þar verður kjörinn nýr formaður. Þetta kemur fram á nýjum pistli á heimasíðu Björns, www.bjorn.is, og þar rifjar hann upp aðdraganda þess að Davíð Oddsson var kjörinn formaður flokksins árið 1991.

Björn segir: „Við, sem höfum starfað lengi í flokknum, vitum, að sé stefnt til landsfundar í því skyni að kjósa forystumenn, geta orðið miklir flokkadrættir í aðdraganda landsfundar við val á fulltrúum til setu á fundinum. Þegar þeir tókust á um formennskuna á landsfundi 1991 Þorsteinn Pálsson, flokksformaður, og Davíð Oddsson, varaformaður, hófst sá slagur ekki fyrr en eftir að fulltrúar höfðu verið valdir. Þá eins og nú var skammur tími til þingkosninga en aðdragandi að þeim var lengri en nú og höfðu prófkjör farið fram haustið 1990. Þá bauð ég mig fram í fyrsta sinn og sóttist eftir þriðja sæti á listanum, sem ég náði.“

Erfitt fyrir vini Davíðs og Þorsteins

Hann segir jafnframt: „Fyrir okkur marga vini þeirra Davíðs og Þorsteins voru þetta erfiðir tímar, því að við urðum að velja á milli samherja. Undan því var ekki vikist og studdi ég Davíð og var oft kallaður í fjölmiðla sem einskonar málsvari hans,  auk þess sem ég tók þátt í viðræðum innan flokksins, sem miðuðu að því að lægja öldur eftir því sem unnt var.

Davíð sat ekki á þingi heldur var borgarstjóri í Reykjavík. Honum þótti hins vegar þingflokkurinn standa illa að mörgum málum og lá ekki á gagnrýni sinni. Var talið, að enginn þingmanna utan Geirs H. Haarde styddi Davíð í þessum formannsslag, þeir stæðu allir að baki formanninum, Þorsteini. Davíð vann engu að síður góðan sigur á landsfundinum og eftir þingkosningarnar 1991 komu margir nýir þingmenn í flokk sjálfstæðismanna. Á skömmum tíma tókst Davíð, sem varð forsætisráðherra að kosningum loknum, að vinna þingflokkinn á sitt band og naut síðan óskoraðs trausts hans, þar til hann hvarf af þingi.“

Samfylkingin kallar á bjarghring frá Sjálfstæðisflokknum

Í þessum nýja pistli fjallar Björn einnig um Evrópumálin og segir meðal annars:

„Hefði Sjálfstæðisflokkurinn elt Samfylkinguna í Evrópumálum, væri hann staddur  á sama stað og Samfylkingin nú – það er þar ríkti upplausn og flokkurinn væri í frjálsu falli eins og Samfylkingin. Í þessu falli kallar Samfylking á bjarghring  frá Sjálfstæðisflokknum og kennir hann við seðlabanka og fjármálaeftirtli. Sjálfstæðismenn verða að móta eigin stefnu um skipan þeirra  mikilvægu mála, sem lúta að gjaldmiðli og fjármálaeftirliti,  og kynna hana á eigin forsendum. Engin ástæða er fyrir þá til að elta Samfylkinguna úr einu vígi í annað í vandræðum hennar.  Samfylkingin verður sjálf að ákveða, hvar hún vill taka sér stöðu. Kosningar hafa verið ákveðnar og jafnframt þarf að ákveða, hver stjórnar landinu fram að þeim. Treysti Samfylkingin sér ekki til þess, þarf það að liggja fyrir án undanbragða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert